*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Erlent 15. september 2017 14:30

Norður Kórea skaut flaug 3.700 km

Norður Kórea sýndi með eldflaugaskoti yfir Japan að flaugar kommúníska útlagaríkisins geta náð til herstöðva Bandaríkjanna á Guam.

Ritstjórn
epa

Stjórnvöld í Norður Kóreu sendu meðaldræga eldflaug yfir Japan í gærkvöldi að íslenskum tíma, en flaugin lenti um 2 þúsund kílómetrum austur af Hokkaido eyju að því er stjórnvöld í Japan upplýstu. Flaugin náði í um 770 km hæð, og flaug hún í um 19 mínútur og dreif hún 3.700 km í heildina, sem er nægileg drægni til að ná til Guam sem liggur 3.400 km sunnan við Japan.

Donald Trump forseti Bandaríkjanna hótaði Norður Kóreu öllu illu ef kommúníska útlagaríkið myndi láta verða af áætlunum um að skjóta flaug í átt að Guam, en hún átti að falla í hafið undan strönd eyjarinnar. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa stjórnvöld í landinu sagt það óraunhæft að ætlast til þess að ríkið bregðist við refsiaðgerðum með því að gefa eftir kjarnorkuvopnaáætlun sína.

Forseti Suður Kóreu, Moon Jae-in sagði viðræður við Norður Kóreu ómögulegar á þessum tímapunkti. Hefur hann skipað embættismönnum að greina og undirbúa landið fyrir frekari árásum frá Norður Kóreu, þar á meðal rafsegulbylgjuárásum og efnavopnaárásum að því er Reuters greinir frá.