Norður-kóresk yfirvöld hafa stolið tæpum 250 milljörðum króna með netárásum á banka og rafmyntakauphallir samkvæmt leynilegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna, sem BBC segir frá .

Tilgangur netþjófnaðarins er sagður vera að fjármagna hernaðaruppbyggingu þjóðarinnar, en tveimur eldflaugum var skotið á loft í gær, sem er í fjórða skiptið síðustu tvær vikur. Kim Jong-un, leiðtogi Norður-kóreu, segir eldflaugarnar vera viðvörun vegna hernaðaræfinga Bandaríkjanna og Suður-kóreu sem nú standa yfir.

Auk þjófnaðarins rannsaka sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna nú hugsanlegan námugröft Norður-kóreu eftir rafmyntum, en í skýrslunni kemur fram að rafmyntaþjófnaðurinn komi sér einkar vel fyrir alræðisríkið, þar sem mun erfiðara sé að rekja rafmyntafærslur en hefðbundnar bankafærslur.

Þá kemur fram að Norður-kórea hafi orðið sér úti um íhluti í gereyðingarvopn, í trássi við viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna. Kim Jong-un samþykkti á fundi með Donald Trump Bandaríkjaforseta á síðasta ári að hætta þróun kjarnorkuvopna og langdrægra eldflauga, en eftir árangurslausar viðræður þjóðarleiðtoganna tveggja í Vietnam á þessu ári hafa samskipti þeirra farið kólnandi.