Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna setti í gær Norður Kóreu á lista yfir lönd sem stunda peningaþvætti, en með því er öllum fjármálastofnunum sem eiga viðskipti við Bandaríkin meinað að eiga viðskipti við Norður Kóreu að viðurlögðum refsingum.

Fjármagna eldflaugar og kjarnorkuvopn

Þetta skref er tekið í kjölfar eldflauga og kjarnorkutilrauna Norður Kóreu en einungis nokkrum dögum fyrir ráðstefnu Bandaríkjanna og Kínverja sem fjármálaráðherra Bandaríkjanna mun sitja. Er ætlunin að setja þrýsting á fjármálastofnanir í Kína að slíta tengsl sín við banka og stofnanir í Norður Kóreu.

Í yfirlýsingu ráðuneytisins segir að Norður Kórea noti ríkisbanka til að stunda aðgerðir á alþjóðlegum mörkuðum sem fjármagni eldflauga og kjarnorkuuppbyggingu í landinu. Aðgerðirnar koma degi eftir að Norður Kórea reyndi að skjóta á loft eldflaug með miðlungsdrægni, sem Suður Kórea segir að hafi ekki tekist.