Bandarískur vefgreinandi rakst fyrir tilviljun á vefsíðuna “Best Korea’s Social Network” - sem þýðir á íslensku „Samfélagsmiðill bestu Kóreu.” Vefsíðan er skráð í Norður-Kóreu og minnir óneitanlega á samfélagsmiðilinn vestræna sem allflestir Íslendingar kannast við og nota - Facebook. Frá þessu er greint á vefsíðu CNN .

Svo virðist sem vefsíðan sem um ræðir hafi verið tekin niður - líklega af yfirvöldum í Norður-Kóreu - en skjáskot, sem sjá má hér að ofan, náðist af því hvernig persónuleg heimasíða hvers notanda liti út, í grófum dráttum. Ljóst er að útlínur og litir síðunnar minna óneitanlega á Facebook. Efri hlutinn er nánast alveg eins og Facebook eins og vestrænar þjóðir þekkja miðilinn.

Hver sá sem gerði Best Korea’s Social Network notaðist við phpDolphin, sérstakt kerfi sem gerir notandanum kleift að gera einfaldan klón af Facebook út frá forritunarkóða vefsíðunnar. Enn er óljóst hver það var sem stóð að gerð vefsíðunnar en mögulegt er að hún sé verkefni í vinnslu hjá ríkisstjórn Norður-Kóreu.

Í öllum föllum er óvenjulegt að vefsíður þjóðarinnar, sem býður upp á gífurlega takmarkað netsamband, séu hýstar í Norður-Kóreu - þar eð flestar vefsíður sem landsmönnum bjóðast til að nota eru hýstar í Kína. Mikil ritskoðun ríkir á þeim þegar fáu vefsíðum sem Norður-Kóreumönnum stendur til boða að nota.