„Við erum stolt af rekstri álversins og heilt á litið er uppgjörið ágætt miðað við aðstæður. Við höfum rekið álverið með hagnaði síðustu árin og náð miklum árangri í rekstrinum,“ segir Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, í samtali við Markaðinn á Fréttablaðinu .

Álverið á Grundartanga skilaði hagnaði upp á 3,2 milljarða króna á árinu 2013 og dróst hann því saman um tæplega 41 prósent milli ára.

Fyrirtækið hefur stefnt að því frá árinu 2005 að byggja allt að 360 þúsund tonna álver í Helguvík og eru stjórnendur fyrirtækisins enn ákveðnir í því að það verði að veruleika.

„Við höfum fullan hug á að klára Helguvíkurverkefnið. Það er ljóst enda sjáum við mikil tækifæri í áliðnaði. Þetta strandar á raforkuafhendingunni og á meðan svo er getum við auðvitað ekki farið lengra nema aðrir orkusalar komi að verkefninu,“

Ragnar segir það ekki koma til greina að leysa HS Orku undan samningi þar um.

„Ástæðan fyrir því að álverinu var valinn staður í Helguvík er að sveitarfélögin á svæðinu buðu orku frá HS Orku í verkefnið. Það kemur því ekki til greina að ætla að leyfa HS Orku að labba frá samningunum.“