*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 2. nóvember 2021 19:04

15 milljarða gjaldþrot Helguvíkurálvers

Norðurál í Helguvík ehf., álverið sem aldrei var byggt, er gjaldþrota. Móðurfélagið er eini eigandi og kröfuhafi.

Júlíus Þór Halldórsson
Framkvæmdir við álver Norðuráls í Helguvík hófust sumarið 2008, en voru aldrei kláraðar. Þar stendur autt húsið enn meira en áratug síðar.
Haraldur Jónasson

Félagið Norðurál Helguvík ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta nú á fimmtudag. Félagið var með neikvætt eigið fé upp á hátt í 15 milljarða króna í lok síðasta árs, en það er alfarið í eigu móðurfélagsins, Norðuráls, sem að sama skapi er eini kröfuhafi þess.

Gjaldþrotið á sér langan aðdraganda. Sumarið 2008 hófust framkvæmdir við byggingu álvers Norðuráls – sem er í eigu bandaríska álfyrirtækisins Century Aluminum, og rekur álver á Grundartanga – í Helguvík.

HS Orka hafði árið áður skuldbundið sig til að skaffa álverinu 150MW af orku, en það var aðeins um fjórðungur þess sem álverið kæmi til með að þurfa. Orkuveita Reykjavíkur hafði einnig skuldbundið sig til að selja verinu eitthvað af orku, en eftir stóð að frekari raforku yrði þörf til að starfrækja það.

Fékkst aldrei næg raforka
Nokkrum mánuðum eftir fyrstu skóflustungu kom hrunið, og árið 2009 voru framkvæmdir stöðvaðar. Næstu árin gerðist lítið, og fimm árum síðar, árið 2014, sagði forstjóri Century, Michael Bless, að forsenda þess að halda verkefninu áfram væri aðkoma Landsvirkjunar með þá raforku sem uppá vantaði.

Forstjórar bæði Landsvirkjunar og HS Orku bentu hinsvegar á að miðað við þáverandi álverð, og horfur í þeim efnum, væri útilokað að bæði álverið og raforkuvirkjanir sem sæju því fyrir rafmagni gætu staðið undir sér fjárhagslega.

Í desember 2016 losaði gerðardómur HS Orku svo undan samningnum frá 2007. Forstjóri Norðuráls sagði við það tilefni að í kjölfarið yrði það metið hvaða möguleikar væru fyrir hendi í þeirri stöðu sem upp væri komin, og hvort mögulegt væri að afla orku til verkefnisins eftir öðrum leiðum.

16,5 milljarða afskrift
Í uppgjöri Century Aluminum fyrir fjórða ársfjórðung 2016 var verkefnið í Helguvík svo afskrifað um 152 milljóni dala, um 16,5 milljarða króna á gengi þess tíma. Í ársreikningi Norðuráls fyrir árið 2018 sagði að „ólíklegt ef ekki ómögulegt“ yrði að teljast að afla nægilerar raforku fyrir verkefnum, á samkeppnishæfu verði.

Í október í fyrra skrifuðu Norðurál og Samherji undir viljayfirlýsingu um að Samherji keypti lóðina og bygginguna í Helguvík, sem útgerðarfélagið hugðist nota undir laxeldi á landi. Ekkert varð hinsvegar úr þeim áformum.

Síðastliðinn föstudag var svo greint frá því að Íslenski sjávarklasinn ætti í viðræðum við Norðurál um að kaupa byggingarnar og nota undir „grænan sprotagarð“ þar sem fyrirtæki á Suðurnesjum gætu samnýtt auðlindir.

Enn er þó óvíst hver endanleg örlög byggingarinnar sem aldrei varð að álveri verða, en í það minnsta er nokkuð ljóst að móðurfélagið fái þær í sinn hlut við gjaldþrotaskipti stórskuldugs dótturfélagsins, Norðuráls í Helguvík ehf.