*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Fólk 8. júní 2021 09:35

Norðurál ræður nýjan mannauðsstjóra

Guðný Björg Hauksdóttir er nýr framkvæmdastjóri mannauðssviðs Norðuráls en hún gegndi áður sömu stöðu hjá Alcoa Fjarðaáli.

Ritstjórn
Guðný Björg, nýr framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá Norðuráli.
Aðsend mynd

Guðný Björg Hauksdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri mannauðssviðs Norðuráls. Með ráðningu Guðnýjar Bjargar er hlutfall kvenna og karla jafnt í framkvæmdastjórn Norðuráls, með fjóra karla og fjórar konur í stjórninni. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Frá árinu 2011 hefur Guðný Björg verið framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá Alcoa Fjarðaáli, en hún hefur einnig gegnt ýmsum störfum hjá álverinu eystra frá stofnun þess. Hún hefur lokið Diploma námi í Mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands og er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði. Guðný tekur við starfinu af Sigrúnu Helgadóttur sem nýlega tók við starfi framkvæmdastjóra Norðuráls Grundartanga.

„Það verður skemmtilegt að takast á við nýjar áskoranir á nýjum vinnustað. Hjá Norðuráli starfar fjölbreyttur og þéttur hópur fólks sem vinnur vel saman og hefur metnað fyrir því sem það gerir. Ég hlakka til að taka þátt í því starfi með þeim," segir Guðný Björg í tilkyninngunni.

„Við erum hæstánægð með að fá Guðnýju Björgu til liðs við okkur. Hún býr yfir mikilli reynslu sem mun nýtast vel í starfi. Það eru spennandi tímar framundan hjá Norðuráli og mörg verkefni framundan. Það er einnig sérstaklega ánægjulegt að með ráðningunni náum við jafnvægi milli kynjanna í framkvæmdastjórn Norðuráls. Við erum afar lánsöm að hafa fengið Guðnýju Björgu í hópinn og bjóðum hana hjartanlega velkomna," segir Sigrún Helgadóttir, framkvæmdastjóri Norðuráls Grundartanga, í tilkynningunni