Umhverfis- og auðlindanefnd Norðurlandaráðs gagnrýnir nýgerðan samning Norðmanna, Færeyinga og Evrópusambandsins um veiðar á makríl. Telur nefndin að fyrirhugaðar veiðar séu langt frá því að geta talist sjálfbærar þar sem þær séu mun meiri en veiðiráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins ICES kveður á um.

Hinn færeyski Sjúrdur Skaale, talsmaður nefndarinnar, segir það algert grundvallaratriði að fiskveiðiþjóðir haldi sig við veiðiráðgjöf. Það sé mikilvægt að strandríkin öll nái samkomulagi sín á milli um ákvörðun heildarafla og skiptingu hans. Í ljósi þess að of oft komi upp ágreiningur um þessi mál þá sé það jafnframt mikilvægt að ríkin sem hlut eigi að máli  komi sér saman um traustan lagalegan grundvöll til að byggja á ákvarðanir um veiðar á uppsjávarfiski og flökkustofnum.