Á síðastliðnu ári komu um 8000 ferðamenn til Tromsø í Noregi í von um að sjá norðurljós. Mun fleiri hafa heimsótt bæinn nú en á sama tíma í fyrra og hafa hótel verið þéttsetin síðustu daga og vikur. Tekjur Tromsø af þessum norðurljósaferðamönnum vaxa ört og eru orðnar rúmar 100 milljónir norskra króna fyrir yfirstandandi ferðatímabil. Norska dagblaðið Aftenposten hefur eftir hótelrekendum á svæðinu að meirihluti gesta óski eftir því að hótelið veki þá verði norðurljósa vart. Þá segja hótelrekendur norðurljósin sannarlega vera efst á óskalista gestanna og að sérstaklega skemmtilegt sé að fylgjast með viðbrögðum þeirra sem lengst hafa ferðast þegar þeir loksins sjái ljósin langþráðu.