Aurora Arktika og Norðursigling hafa ákveðið að hefja formlega samvinnu um markaðsstarf og framkvæmd ferðanna í Jökulfjörðum.

Aurora Arktika hefur verið með skipulagðar skíða- og skútuferðir í Jökulfjörðum í 10 ár auk ævintýraferða við Vestfirði, til Jan Mayen og á austurströnd Grænlands. Norðursigling hefur boðið upp á sambærilegar ferðir í Eyjafirði undanfarin ár auk sívaxandi umsvifa í hvalaskoðun á Skjálfanda og í ævintýraferðum í Scoresbysundi á Grænlandi. Sigurður Jónsson, eigandi Aurora Arktika, segir í tilkynningu að skíðaferðir Auroru hafi gengið ákaflega vel en að ákveðin eftirspurn hafi alltaf verið eftir meira plássi og auknum þægindum sem hægt verði að bjóða upp á með stærra skipi. Fyrirtækin muni vinna náið saman að því að halda umhverfisáhrifum skíðahópanna í lágmarki.

Samlegðaráhrif Heimir Harðarson, skipstjóri og einn af eigendum Norðursiglingar segir samstarfið koma báðum fyrirtækjum til góða. Norðursigling muni nýta seglskipið Donnu Wood í þessar ferðir næsta vor en hún er liðlega 31 meters langt tvímastra eikarskip sem var smíðað 1918 en breytt í farþegaskip 1990. Skipið sem bættist í flota Norðursiglingar fyrr á þessu ári er með 7 fullbúnar káetur fyrir farþega og stóran matsal. „Allur aðbúnar um borð í Donnu Wood er með besta móti og tilkoma skipsins gerir fyrirtækjunum kleift að auka gæði og bjóða betri aðbúnað í slíkum ferðum en hingað til hafi verið hægt,“ segir Heimir Harðarson. Sigurður Jónsson segist hlakka til samstarfsins: „Aurora er 60 feta seglskúta sem upphaflega var notuð í kappsiglingum í kringum hnöttinn. Hún er orðin heimsþekkt sem „færanlegur fjallakofi“ og miðstöð fyrir frábæra náttúruupplifun víða um norður Atlantshaf. Við munum að sjálfsögðu halda áfram að bjóða uppá skíðaferðir með henni.“

Náttúran í fyrirrúmi Forsvarsmenn fyrirtækjanna tveggja telja samlegðaráhrifin af samstarfinu mjög mikil. „Við erum spenntir og mjög ánægðir með hversu vel þessi fyrirtæki ná saman um áherslur og stefnu, ekki síst hvað varðar áhersluna á sjálfbærni og virðingu fyrir umhverfinu“, segir Heimir Harðarson hjá Norðursiglingu.