Norðursigling hlaut silfurverðlaun World Responsible Tourism Awards 2015 fyrir umhverfisvæna ferðamennsku á World Travel Market (WTM) ráðstefnunni sem haldin var í síðustu viku.

Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskt ferðaþjónustufyrirtæki er heiðrað með þessum hætti en Norðursigling hlaut verðlaunin fyrir Opal verkefnið, en það er rafknúið hvalaskoðunarskip sem er hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Í tilkynningu frá Norðursiglingu segir um Opal hvalaskoðunarskipið:

„Seglskipið Opal er tæknivæddasta skipið sem notað er í hvalaskoðun á Íslandi en skipið er með nýjan og sérhannaðan skrúfubúnað sem hleður rafgeyma skipsins undir seglum. Rafgeymar Opal eru hlaðnir með umhverfisvænni orku í höfn en þegar siglt er undir seglum er hægt að breyta skurði skrúfublaðanna og hlaða rafmagni inn á geyma skipsins. Hvalaskoðunin verður vegna þessa enn hljóðlátari sem hefur jákvæð áhrif á upplifun gesta og hefur mun minni truflandi áhrif á hvalina sem skoðaðir eru. Búnaðurinn hefur vakið mikla athygli erlendis og hefur Norðursigling nú uppskorið verðlaun fyrir vikið.“

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar:

„Við verðum vör við það að ferðamenn eru í síauknum mæli að velta fyrir sér umhverfisáhrifum og viðurkenningar sem þessar hvetja okkur áfram í þróun sjálfbærrar og umhverfisvænnar ferðaþjónustu.  Það eru spennandi tímar framundan við að efla og bæta vistvænt vöruframboð félagsins og vinna með nýjum hluthafa sem óneitanlega setur enn meiri byr í seglin“.