Norðurþing fær ekki að kaupa 700 tonn af aflaheimildum útgerðarfyrirtækisins Vísis. Bréf þess efnis var lagt fram á fundi bæjarráðs í síðustu viku. Bæjarráð lét bóka að það harmaði þá ákvörðun útgerðarfélagsins að ganga ekki til samninga við sveitarfélagið. Þessu greinir RÚV frá.

Bæjarráð Norðurþings samþykkti á fundi sínum um miðjan apríl að falast eftir tveimur eignum og aflaheimildum Visis á Húsavík eftir að Vísir ákvað að flytja starfsemi sína til Grindavíkur.

Norðlenska keypti eignir útgerðarfyrirtækisins á Húsavík í maí en hefur nú hafnað beiðni Norðurþings um að kaupa hluta af aflaheimildum félagsins.

Kaupin áttu að vera byggð á samkomulagi sveitarfélagsins við eigendur og hluthafa Vísis en það var gert í tengslum við kaup Vísis á hlut sveitarfélagsins í Fiskiðjusamlagi Húsavíkur.

Samkomulagið gerði ráð fyrir að byggja upp og efla starfsemina á Húsavík. „Nú liggur fyrir að þær forsendur eru brostnar og því eðlilegt að sveitarfélagið fái tækifæri til endurkaupa á eignum og aflaheimildum þannig að tryggja megi að markmið samkomulagsins nái fram að ganga,“ sagði í bókun bæjarráðs í apríl