Nú virðist styttast í að framkvæmdum ljúki við Norðurturninn svokallaða, háhýsi norðan Smáralindar. Fyrsta skóflustunga að húsinu var tekin þann 17. apríl 2007. Framkvæmdir við húsið lágu niðri í nokkur ár en hófust að nýju árið 2013.

„Ég von á því að þetta verði langt komið í lok september, byrjun október,“ segir Ríkharð Ottó Ríkharðsson framkvæmdastjóri Nýja Norðurturnsins hf. í samtali við Viðskiptablaðið. „Síðan eru leigumálin auðvitað bara í vinnslu. Við erum með ákveðna áætlun þar.“

Ánægður með áhugann

Reginn leigir fyrstu tvær hæðirnar í húsinu. Á fyrstu hæð er áformað að hafa verslanir og þjónustu, enda verður innangengt inn í Smáralind. Ríkharð segist ánægður með áhugann sem verkefnið virðist hafa meðal hugsanlegra leigutaka.

„Maður er auðvitað búinn að henda út fræjum. Sumarið er að koma og maður vonast til að eitthvað af þessu skili. Við erum fyrst og fremst núna að skoða kjölfestuleigutaka, áður en við förum að leigja út minni rými eða hálfar hæðir eða eitthvað slíkt,“ segir Ríkharð.