Noregur er annað mikilvægasta markaðssvæði Glitnis á eftir Íslandi og bankinn hefur, að minnsta kosti til skamms tíma, skilgreint báða þessa markaði sem heimamarkaði sína.

Norski heimamarkaðurinn hefur þó greinilega reynst fé Glitnis nokkuð hrjóstrugri bithagi en menn líklega gerðu sér vonir um og þannig eru litlar sem engar líkur á að féð sem þar er á beit komi feitt af fjalli í ár.

Í þessu sambandi ber þó að hafa í huga að ýmislegt hefur orðið til þess að draga niður afkomuna í Noregi á fyrri helmingi ársins og líklegt er að bankinn verði laus við slíka slynki á síðari helmingi ársins.

Tap á öðrum ársfjórðungi Miðað við nýlegt fjórðungsuppgjör Gitnir ASA, þ.e. Glitnis í Noregi, er nokkuð ljóst að reksturinn í Noregi hefur dregið verulega niður afkomu Glitnis í heild.

Þannig má nefna að um 22% af heildareignum Glitnis falla undir Glitni í Noregi og meira en fjórðungur af eiginfé bankans en þó komu aðeins 10% af hreinum rekstrartekjum bankans frá Noregi á fyrri helmingi ársins og einungis 6% af hagnaði bankans eftir skatta.

Þetta táknar einfaldlega að arðsemi þess eiginfjár sem Glitnir er með í Noregi er afar léleg og miklu minni en annars fjár sem Glitnir vinnur með. Þannig má nefna að uppgefin arðsemi eiginfjár Glitnis í Noregi fyrir skatta nam um 6% á fyrri helmingi ársins á meðan arðsemin fyrir Glitni í heild var 16%, og það eftir skatta.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .