Öflug fasteignaverðsuppsveifla er nú í Noregi samkvæmt gögnum norsku hagstofunnar Statistisk sentralbyra. Hækkaði fasteignaverðsvísitalan um 9,1 % frá öðrum ársfjórðungi 2009 til sama tíma 2010. Þar af var hækkunin 3,7% á öðrum ársfjórðungi 2010. Nær uppsveiflan til allra héraða og allra tegunda fasteigna.

Global Property Guide fjallar um málið á heimasíðu sinni og segir að uppsveiflan sé einkum drifin áfram af lágum vöxtum. Segir GPG að vextir séu nú aftur komnir niður í sögulegt lágmark áranna 2004 og 2005. Eru bankavextir rétt um 4% eftir að hafa farið hæst í 7% á þriðja ársfjórðungi 2008. Vextir fjármögnunarfyrirtækja eru þó í sumum tilfellum allt niður í 3,65%. Þess má geta að í Noregi er ekki um að ræða verðtryggða vexti í almennum fasteignaviðskiptum líkt og hérlendis. Samfara þessu hefur kaupmáttur verið að aukast.

Fasteignaverðsvísitalan hefur hækkað mismikið milli svæða en langmest er hækkunin í Stafangri eða 16,8% á milli ára. Næst kemur Bergen með 14,6% og Þrándheimur með 11,6%. Í Osló nemur hækkunin um 8,9%. Í heilum landsvæðum er hækkunin þó minnst að meðaltali í vesturhluta Noregs eða 3,6% á meðan svæði eins og Agder og Rogaland voru með 10,7% hækkun að meðaltali.