Noregur ætlar að grípa til olíusjóðsins til að fjármagna nýjan útgjaldapakka ríkisins, að því er segir í frétt FT. Í sjóðnum eru 332 milljarðar dala og er hann næst stærsti fjárfestingasjóður í ríkiseigu í heimi, á eftir sjóði í Abu Dhabi.

FT hefur eftir Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs að ríkið muni kynna útgjaldaáætlanir í janúar. Þær áætlanir verði viðbót við þegar fram komið útgjaldafrumvarp fyrir árið 2009. „Við höfum haldið aftur af okkur og takmarkað nýtingu á olíutekjunum þegar tíðin hefur verið góð en nú getum við byrjað að eyða meiru þegar við sjáum fram á niðursveiflu,“ er haft eftir Stoltenberg.

Hann segir ennfremur að þegar hafi verið lagt fram fjárlagafrumvarp sem muni örva hagkerfið um sem nemur 0,7% af landsframleiðslu. Viðbótin sem komi úr olíusjóðnum verði mjög bein og fari sérstaklega í greinar þar sem niðursveiflan hefur verið mest, svo sem í byggingariðnaðinn.

FT segir ennfremur að búist sé við að seðlabankinn í Noregi lækki vexti á miðvikudag um 100 punkta í 3,75%.