Verðmæti hlutabréfa í þeim sjávarútvegsfyrirtækjum sem skráð eru í kauphöllinni í Osló hafa hækkað um 24 milljarða norskra króna frá áramótum, jafnvirði 480 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi. Þetta er 161% hækkun.

Þrettán sjávarútvegsfyrirtæki eru skráð í kauphöllinni og er heildarverðmæti þeirra nú liðlega 39 milljarðar norskra króna. Hlutabréf Marine Harvest og Grieg Seafood hafa hækkað mest frá áramótum, bæði um yfir 300%.

Hlutabréf nokkurra annarra fyrirtækja í þessum hópi hafa meira en tvöfaldast í verði. Hlutabréf Austevoll Seafood hafa hækkað um 173%, Copeinca um 158% og Leröy Seafood Group um 122%.

Norsku sjávarútvegsfyrirtækin hafa rétt sig rækilega við í kauphöllinni í Osló því á árinu 2008 minnkaði verðmæti hlutabréfa þeirra um samtals 29 milljarða norskra króna.

Kjolbjörn Giskeödegård greinandi Nordea bankans í Noregi segir í samtali við vefinn IntraFish að þróunin á hlutabréfum sjávarútvegsfyrirtækjanna sé stórkostleg og án fordæmis í öðrum geirum á hlutabréfamarkaði í heiminum.