Þegar fjármálakreppan skall á sluppu fá ríki eins vel og Noregur frá áföllunum sem dundu yfir næstum gjörvalla heimsbyggðina frá árinu 2008. Miklar tekjur Norðmanna af olíuvinnslu komu sér sérstaklega vel á þessum erfiðu tímum en með lækkandi olíuverði síðustu mánuðina eru blikur á lofti í efnahagslífi Norðmanna.

Í júní var verð á tunnu af Brent Norðursjávarolíu í kringum 64 dali en í byrjun þessa mánaðar féll verðið undir fimmtíu dollara á tunnu. Jafngildir þetta um 22% lækkun á tveimur mánuðum og hefur styrking olíuverðs sem varð á fyrri hluta ársins nánast þurrkast út. Í maí síðastliðnum spáði norska fjármálaráðuneytið því að hagvöxtur í Noregi yrði 1,3% á þessu ári og um 2% árið 2016 en það er nokkuð undir meðaltalsvexti síðustu fjóra áratugi. Atvinnuleysi hefur hækkað umtalsvert á síðustu mánuðum en í maímánuði nam það 4,3% og hefur ekki verið hærra í um ellefu ár.

Eftir fjármálakreppuna náði atvinnuleysi í Noregi hámarki í 3,7% árið 2010 en það hefur farið stigvaxandi frá byrjun þessa árs. Þar sem tekjur af olíuvinnslu eru svo stór hluti af þjóðartekjum Noregs er því allt útlit fyrir að Norðmenn þurfi að sækja enn meira fé í olíusjóðinn en áður hefur verið gert til að dempa áhrif olíuverðlækkana á norskan efnahag. Í maí lagði norska fjármálaráðuneytið til að 168,8 milljörðum norskra króna af tekjum vegna olíuvinnslu yrði varið til ríkissjóðs. Það jafngildir 2,4% af markaðsvirði olíusjóðsins sem er þó innan þeirra fjögurra prósenta marka sem norska ríkið vill halda sig við.

Áhrif olíuverðs á efnahag Norðmanna
Áhrif olíuverðs á efnahag Norðmanna

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .