Flugfélagið Norlandair sem varð hlutskarpast í útboði Vegagerðarinnar á farþegaflugi til tveggja flugvalla á Vestfjörðum segist knúið til að leiðrétta rangfærslur í yfirlýsingu Samtaka atvinnurekenda á Vestfjörðum.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag eru samtökin ósátt við að flugfélagið sem taki við áætlunarfluginu á Bíldudal og Gjögur muni notast við það sem þau kalla minni og eldgamlar flugvélar sem lækki þjónustustigið frá því sem var meðan flugfélagið Ernir sinnti fluginu.

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um það í gær að Ernir hefði eftir ítrekaðar kærur á útboðinu tekist að halda einni af flugleiðunum þremur sem Vegagerðin hefði boðið út, það er til Hafnar í Hornafirði. Norlandair segir þvert á móti það hafið yfir allan vafa að flugfélagið noti tækjabúnað sem sé „mjög góður og stenst allar kröfur“ eins og segir í yfirlýsingu félagsins.

Jafnframt er þar tekið skýrt fram að félagið hafi ávallt verið rekið með hagnaði, sé skuldlaust og eigi milljarð í eigið fé og hafi því uppfyllt öll fjárhagsleg skilyrði, sem og skilyrði um gæði búnaðar, í útboði Vegagerðarinnar, og það rúmlega.

Ætla að nota 9 sæta flugvél í Bíldudal og Gjögur

Félagið segir að til standi að nota í flugið til áfangastaðanna á Vestfjörðum nýlega 9 sæta Beechcraft B200 King Air, sem búin er jafnþrýstibúnaði. Í yfirlýsingu vestfirsku samtakanna var bent á að sú vél væri helmingi minni en sú sem Ernir nýtti í flugið auk þess sem notuð yrði 50 ára gömul Twin Otter vél án slíks búnaðar.

Jafnframt segir Norlandair að notast verði við flugvél af gerðinni Dash 8-200, sem er 37 sæta, þegar og ef þörf krefði. Að auki búi félagið yfir þremur Twin Otter flugvélum sem þykji einstaklega hentugar við erfiðustu skilyrði á norðurslóðum, en þær vélar notast félagið mest við á Grænlandi.

Á vormánuðum segist félagið jafnframt hafa verið komið langt með að tryggja sér Dash 8 flugvél, en þau áform hafi frestast sökum COVID-19. Norlandair rekur 5 flugvélar og hefur sinnt áætlunarflugi fyrir Vegagerðina í 12 ár, auk leigu- og sjúkraflugs á  N-Atlantshafinu.

Rætur félagsins liggja í Flugfélagi Norðurlands sem rann saman við Flugfélag Íslands (nú Air Iceland Connect) árið 1997 og segir það að gott samstarf hafi verið milli Flugfélags Íslands / AIC frá þeim tíma sem Norlandair tók á sig mynd árið 2008.