Samið hefur verið við Norðlenska matborðið ehf. á Akureyri, að þeir kaupi afurðir beint af bændum við innlegg í sláturtíð, en Sláturfélagið Búi svf. annaðist framkvæmd slátrunarinnar samkvæmt sérstökum verktökusamningi. Nú hefur verið ákveðið að Sláturfélagið Búi svf. hefur keypt sláturhúsið á Höfn, en jafnframt hefur verið gerður langtíma leigusamningur við Norðlenska matborðið ehf. um leigu hússins og rekstur þess

Aðalfundur Sláturfélagsins Búa svf. var haldinn á Hótel Höfn s.l. miðvikudag. Fram kom á fundinum að á liðnu ári urðu miklar breytingar á starfsemi félagsins. Skömmu fyrir upphaf sláturtíðar s.l. haust varð ljóst að Byggðastofnun mundi ekki veita bakábyrgð vegna afurðalána sauðfjárafurða eins og verið hafði frá 2001 og í kjölfar þess hafnaði Landsbanki Íslands hf. að veita félaginu afurðalán.

Á aðalfundinum kom fram að með þessu móti væri bændum tryggð örugg afsetning afurða sinna á samkeppnishæfu verði, en samtímis væri ljóst að rekstri hússins yrði haldið áfram með sama hætti og verið hefur undanfarin ár.

Við stjórnarkjör í félaginu gaf Olga Friðjónsdóttir á Brekku ekki kost á sér til endurkjörs. Í þriggja manna aðalstjórn eru nú: Ragnar Jónsson, Akurnesi, formaður, Sigurbjörn J. Karlsson, Smyrlabjörgum, varaformaður og Laufey Guðmundsdóttir, Lækjarhúsum ritari. Varastjórn skipa: Bjarni Sigjónsson, Fornustekkum, Guðjón Þorsteinsson, Svínafelli og Flosi Ingólfsson, Flugustöðum.

Norðlenska matborðið er eitt stærsta og öflugasta framleiðslufyrirtæki landsins á sviði kjötvöru. Starfsstöðvar þess eru á Akureyri, Húsavík, í Reykjavík og á Höfn. Á Akureyri eru höfuðstöðvar fyrirtækisins, stórgripasláturhús og kjötvinnsla, á Húsavík eru sauðfjársláturhús og kjötvinnsla, í Reykjavík eru söluskrifstofa og kjötvinnsla (ferskvinnsla) og á Höfn er sauðfjársláturhús.