Norska sjávarútvegsráðuneytið býr sig nú undir umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Þetta hefur fréttavefurinn e24.no eftir Magnor Nerheim, deildarstjóra í norska sjávarútvegsráðuneytinu.

Í fréttinni segir að sjávarútvegur og landbúnaður séu undanskilin EES-samningnum og að þótt Ísland fái fullan aðgang að markaði fyrir landbúnaðarvörur innan ESB hafi það lítil áhrif á Noreg. Öðru máli gegni um sjávarfang því að þar sé Ísland mikilvægur þátttakandi á markaðnum.

Það sé fyrst og fremst þegar kemur að síld og rækju, sem Ísland eigi mikið af, sem aðild Íslands að ESB hefði afleiðingar fyrir Noreg. Þorskur frá Íslandi sé hvort eð er svo gott sem tollfrjáls innan ESB, segir í fréttinni.