Norðmenn hafa sýnt Evrópusambandsumræðu Íslendinga mikinn áhuga að undanförnu enda er talið að innganga Íslendinga í ESB muni grafa undan EES-samningnum.

Um helgina greina norskir fjölmiðlar frá þeim ummælum Geirs H. Haarde forsætisráðherra í samtali við Reuters, að Íslendingar horfi meðal annars til þess möguleka að taka upp evru án inngöngu í ESB.

Innganga gæti tekið tvö ár

Norskir fjölmiðlar hafa líkt sýnt því mikinn áhuga að sífellt fleiri Íslendingar séu, samkvæmt könnunum, að aðhyllast inngöngu Íslands í ESB.

Íslendingar séu líka að verða hlynntari upptöku evru.

Haft er eftir Geir H. Haarde í norskum miðlum um helgina og vitnað í Reuters að ákveði Íslendingar að ganga í ESB gæti það ferli tekið tvö ár. Það gæti enn fremur tekið þrjú ár til viðbótar að taka upp evru í stað krónu.

Norski viðskiptavefurinn e24 segir að Geir tali á þessum nótum á sama tíma og sífellt fleiri snúist gegn ríkisstjórninni og krefjist þess í fjölmennum mótmælum að hún stígi til hliðar.