Að sögn Kolbeins Pálssonar, framkvæmdastjóra atvinnumiðlunarinnar Job.is, hafa þeir fengið þrjár fyrirspurnir frá fyrirtækjum í Noregi þar sem verið er að falast eftir Íslendingum.

Eins og kom fram hér á vefnum fyrr í morgun þá hefur norska fyrirtækið Sekse & Hogstad auglýst eftir íslenskum sérfræðingum.

Kolbeinn sagði að þegar hefðu fengist sterk viðbrögð og félagið væri komið með fjölda umsókna nú þegar auk þess sem auglýsingarnar hefðu verið skoðaðar mikið.

Kolbeinn sagði að tvö önnur norsk fyrirtæki hefðu haft samband við þá og væru að skoða möguleika á að auglýsa eftir fólki hér.

„Það athyglisverða er að þarna er verið að auglýsa eftir sérfræðingum, fólki sem getur gengið beint inn í góð störf á því svæði Noregs sem borgar bestu launin," sagði Kolbeinn.