Norrænu vefmiðlarnir segja í dag frá því að Alþingi Íslendinga hafi samþykkt að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

Á forsíðu fréttavefjar hins norska Aftenposten er haft eftir forsvarsmönnum Evrópusinna og Evrópuandstæðinga í Noregi að þessi ákvörðun Íslendinga geti breytt EES-samningnum.

„Ég er ánægð fyrir hönd Íslendinga," segir Grete Berget, talsmaður Evrópuhreyfingarinnar, í samtali við Aftenposten. „Þetta er söguleg stund."

Hún segir að stjórnmálaflokkarnir í Noregi þurfi í framhaldinu að taka heiðarlega umræðu um áhrif þessa á EES-samninginn.

Heming Olaussen, talsmaður Evrópuandstæðinga, segir að svo kunni að fara að breyta þurfi EES-samningnum en það eigi þó ekki að koma Norðmönnum illa.

Hann bendir einnig á norska skoðanakönnun sem sagði að um 85% Norðmanna teldu að aðild Íslendinga að ESB myndi ekki hafa nein áhrif á stöðu Norðmanna gagnvart sambandinu.