Noregur er reiðubúinn að styðja við íslenskt efnahagslíf, að sögn Martins Skancke, embættismanns norska fjármálaráðuneytisins og talsmanns norsku sendinefndarinnar sem hingað er komin til lands til að meta ástandið.

Hann segir í samtali við Börsen að stuðningur Noregs muni taka mið af því samkomulagi sem íslensk stjórnvöld munu gera við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Norska sendinefndin - en með henni í för er einnig fulltrúi frá sænska fjármálaráðuneytinu - fundar með fulltrúum íslenskra stjórnvalda á morgun.

Nefndin kom til landsins í dag að frumkvæði Jens Stoltenbergs, forsætisráðherra Noregs.