„Nóróveirusýkingar eru árviss skolli og algengar á haustin,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir. Einhverjir hafa orðið þess varir á síðustu vikum að uppgangs- og niðurgangspestir eru að ganga og þá aðallega hjá leikskóla- og skólabörnum.

Haraldur segir að þessar pestir valdi veikindum í tvo til þrjá daga en menn hafi þó meiri áhyggjur berist hún inn á heilbrigðisstofnanir.

„Þetta er leiðindapest. Um leið og einkennin koma fram er fólk mest smitandi og þá er best að fólk haldi sig heima og passi sig að hósta ekki á fólk,“ segir Haraldur og minnir á að á meðan uppköstin ganga yfir sé nauðsynlegt að missa ekki vökva og drekka til dæmis te með sætindum og salti, hrísgrjónasoð eða bláberjasúpu.