Norræn hótelkeðja hefur sýnt því áhuga að kaupa Hótel Sögu af Bændasamtökunum. Hins vegar kom hún að lokuðum dyrum hjá samtökunum þegar eftir því var leitað þar sem þau hafi ekki í hyggju að selja hótelið á næstu árum. Fréttastofa RÚV greinir frá þessu.

Þar kemur fram að forsvarsmanni hótelkeðjunnar þyki það skjóta skökku við að samtökin loki á viðræður án þess að vita hvað tilboðið gæti hljóðað upp á. „Þetta var ekki efnislegt tilboð. Eingöngu ósk um að þeir kæmu að samningsborðinu svo við gætum náð sameiginlegri lendingu um verð og fleira í þeim dúr," segir Rafn Einarsson, sem er í forsvari fyrir hótelkeðjuna, í samtali við RÚV.

Rafn segist hafa fengið póst frá lögmanni Bændasamtakanna um að þau hefðu ekki áhuga á viðræðum þar sem ákveðið hefði verið að selja hótelið ekki um sinn. Þykir honum það miður þar sem hápunktur sé núna í ferðaþjónustu í landinu. Segir hann að bændur ættu því að nýta tækifærið og losa sig úr hótelrekstrinum sem hafi hvílt á þeim í áraraðir.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir í samtali við RÚV að ákvörðun hafi verið tekin hjá stjórn samtakanna um að selja ekki hótelið. Bændasamtökin hafi ákveðið að halda í reksturinn að minnsta kosti næstu þrjú ár.