Samtök norrænna leikjaframleiðenda, Nordic Game Institute, verða stofnuð á mánudaginn næstkomandi, að því er segir í tilkynningu frá íslensku samtökunum, IGI. Fulltrúar samtaka leikjaframleiðenda í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi skrifa undir stofnsamninginn en formaður IGI, Jónas Björgvin Antonsson, skrifar undir fyrir hönd Íslands.

Í tilkynningunni segir að stofnun samtakanna marki tímamót, enda um ört vaxandi iðnað að ræða. 330 norræn leikjafyrirtæki eiga aðild að samtökunum, árleg velta þeirra er um 360 milljónir evra og hjá þeim starfa rúmlega 4.000 manns.

Markmiðið með samnorrænum samtökum er að gæta hagsmuna norrænna leikjaframleiðenda, skapa öflugan samstarfsvettvang og stuðla að uppbyggingu þessa ört vaxandi iðnaðar. Meðal verkefna er að standa fyrir árlegri norrænni leikjaráðstefnu, byggja upp viðskiptasambönd og efna til kynningar á alþjóðlegum vettvangi auk þess að efna til samvinnu við annan skapandi iðnað, ss. kvikmyndaiðnað, sjónvarp og tónlistariðnað.

Stofnun samtakanna mun hafa verið í undirbúningi undanfarið ár og á rætur að rekja til Nordic Game Program sem Norræna ráðherranefndin hefur rekið. Það verkefni var hins vegar tímabundið og er senn á enda. Því segir í tilkynningunni að mikilvægt sé að fá sterk samtök til að vinna að þessum málum í samstarfi við ráðherranefndina og lykilráðamenn í hverju landi.