16. nóvember nk. verður haldin ráðstefna í Hátíðarsal Háskóla Íslands um leiðtogahæfni og forystu á Norðurlöndum (e. Nordic Leadership). Inga Minelgaite Snæbjörnsson, nýdoktor og kennari við Viðskiptafræðideild Háskóla Ísland, er einn af aðstandendum ráðstefnunnar og verður sjálf með erindi.

Hún segir rannsóknir sýna að viðhorf til norrænna stjórnarhátta séu mjög jákvæð og eftirsótt af vinnuafli víðs vegar um heiminn. Telur hún mikilvægt að norræn fyrirtæki geri sér aukna grein fyrir þeim tækifærum sem felist í slíku orðspori og vill auka umræðu um efnið.

Norrænir stjórnarhættir eftirsóknarverðir

Inga segir tildrög ráðstefnunnar vera rannsóknarstarf hennar og norska fræðimannsins dr. Berit Sund, sem einnig verður gestafyrirlesari á ráðstefnunni. „Við dr. Berit Sund höfum undanfarið leitt rannsóknir á leiðtogahæfni og forystu á Íslandi og í Noregi og rannsakað ítarlega norræna/ skandinavíska stjórnarhætti. Í þessu starfi okkar höfum við sérstaklega rekið okkur á tvær staðreyndir.Í fyrsta lagi komumst við að því að heimurinn lítur á norræn svæði og norræna stjórnarhætti sem eitt, þ.e. sem eina tegund stjórnunar. Viðhorf manna er sérstaklega jákvætt gagnvart norrænum stjórnarháttum og endurspeglast það sérstaklega í því hve jákvæðum augum starfsmenn erlendra fyrirtækja líta slíka tegund stjórnunar. Þannig segjast fjölmargir frekar vilja vinna hjá norrænum fyrirtækjum en fyrirtækjum í eigu innlendra aðila. Helstu ástæðurnar eru sagðar fyrirtækjamenningin og stjórnarhættir slíkra fyrirtækja,“ útskýrir Inga.

Hún segir að hér sé um að ræða mikilvægan þátt sem norrænum fyrirtækjum hafi hingað til yfirsést í tilraunum sínum til að koma sér á framfæri utan norrænna landamæra. „Norræn fyrirtæki eru að fara á mis við mikilvæg tækifæri sem myndi auðvelda þeim að koma sér á framfæri. Þau tala þannig gjarnan aðallega um mögulegar fjárfestingar þeirra á svæðunum eða um störfin sem þau koma til með að skapa. Að okkar mati eru norrænir stjórnarhættirnir hins vegar alveg jafn veigamikið aðdráttarafl og geta því skipt sköpum og orðið eins konar vörumerki hvað varðar leiðtogahæfni og stjórnarhættií hinu alþjóðlega viðskiptalífi,“ segir Inga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.