Mikil lækkun hefur orðið á gengi bréfa fjármálafyrirtækja á Norðurlöndunum frá því að markaðir opnuðu í morgun. Fjármálafyrirtækjavísitala OMX hefur lækkað um 5,4%.

Danske Bank hefur lækkað um 8,3%, Jyske Bank lækkar um 4,2%, Nordea lækkar um 6,2% og Handelsbanken um 6,4% og Swedbank um 6,8%.

Kaupþing hefur lækkað um tæp 3% í kauphöllinni í Stokkhólmi. Sampo, sem bæði Kaupþing og Exista eiga stóran hlut í hefur lækkað um 4,8%. Storebrand hefur lækkað um 6,5%, en Kaupþing og Exista eiga einnig hlut í því félagi.