*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 3. mars 2006 18:03

Norræni hlutabréfamarkaðurinn stendur sig vel

Ritstjórn

Úrvalsvísitölur norrænu hlutabréfamarkaðanna hafa hækkað töluvert það sem af er ári, segir greiningardeild Landsbankans.

Finnsku og norsku úrvalsvísitölurnar hafa hækkað um 12% og sú sænska um 5%, en til samanburðar hefur íslenska úrvalsvísitalan hækkað um 18%.

Danska úrvalsvísitalan sker sig úr hópi hinna norrænu, en hún hefur lækkað um 1% frá áramótum.

Meginorsök lækkunarinnar má væntanlega rekja til óróleika í landinu vegna hótanna og viðbragða múslima við birtingu skopmynda af Múhameð spámanni sem birtust í Jyllandsposten í lok janúar á þessu ári, segir greiningardeildin,

Þetta telst nokkuð góð ávöxtun í samanburði við úrvalsvísitölur í Bandaríkjunum og Evrópu, segir greiningardeildin.

Þannig hefur S&P vísitalan sem samanstendur af 500 stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna hækkað um 3,3% frá áramótum og DAX, þýska úrvalsvísitalan í hefur hækkað um 6,7%.

Ef teknar eru hækkanir á norrænum mörkuðum síðustu 12 mánuði hækkaði íslenska úrvalsvísitalan um 57%, en þar á eftir kemur norska úrvalsvísitalan með 44% hækkun. Minnst var hækkunin á sænsku úrvalsvísitölunni eða 29%.