Fjármögnunarmöguleikar norrænna kvikmyndafyrirtækja aukast til muna þegar tvær einkareknar sjónvarpsstöðvar ganga til liðs við Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn. Kanal 4 frá Finnlandi og sænska sjónvarpsstöðin Kanal 5 eru nú orðnar aðilar að sjóðnum.

Í tilkynningu vegna þessa segir að fjárlög Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins hafi numið 71,5 milljónum norskra króna á árinu 2007 og rúmlega 140 kvikmyndaverkefni fengu styrk úr sjóðnum.

Hanne Palmquist, framkvæmdastjóri sjóðsins, útskýrir hvernig fjármögnunartækifærin hafa aukist: “Í starfsreglum sjóðsins er lögð mikil áhersla á að framleiðendur hafi samið um sýningar við að minnsta kosti eina sjónvarpsstöð sem er aðili að sjóðnum áður en sótt er um styrk úr sjóðnum. Með aðild Kanal 4 frá Finnlandi og sænsku sjónvarpsstöðvarinnar Kanal 5 fjölgar sjónvarpsaðilum sjóðsins úr níu í ellefu, og þar með fjölgar fjárfestum sem norrænir kvikmyndaframleiðendur geta átt samstarf við. Þetta sýnir greinilega að æ fleiri sjónvarpsstöðvar leggja áherslu á að bjóða áhorfendum upp á vandaðar norrænar kvikmyndir, leikna sjónvarpsþætti og heimildakvikmyndir.”

Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki á öllum Norðurlöndunum varðandi fjármögnun á undirbúningi, framleiðslu og dreifingu á leiknum kvikmyndum, sjónvarpsefni og heimildakvikmyndum.

Stefan Wallin, menningar- og íþróttaráðherra Finna, rekur ástæður fyrir því að sjónvarpsstöðvarnar tvær gengu til liðs við sjóðinn.”Þegar finnska sjónvarpsstöðin Kanal 4 og Kanal 5 frá Svíþjóð gerast aðilar að Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum aukast enn frekar fjármögnunarmöguleikar í norrænum kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði. Þetta styrkir ekki aðeins stöðu sjóðsins sem helsta lokafjármögnunaraðila á Norðurlöndum, heldur munu norrænir kvikmynda- og sjónvarpsáhorfendur einnig njóta góðs af þessu,” bendir Stefan Wallin á.

Pirjo Airaksinen, dagskrárstjóri hjá einkareknu sjónvarpsstöðinni Kanal 4 í Finnlandi, bætir því við að á þeim 10 árum sem sjónvarpsstöðin hefur starfað hafi hún átt mikinn þátt í að þróa og hvetja óháða kvikmyndaframleiðendur í Finnlandi með því að kaupa kvikmyndir þeirra.

- Aðild að Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum skiptir því sköpum. Það er mjög mikilvægt að finnskir framleiðendur sem starfa með Kanal 4 geti einnig sótt um fjármögnun úr norrænum sjóðum og því erum við mjög ánægð með að vera gengin til liðs við Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn.

Lars Beckung, dagskrárstjóri Kanal 5 í Svíþjóð, tekur undir þessi orð og bætir við: “Það er mikil eftirspurn meðal áhorfenda okkar eftir sænskum kvikmyndum. Við leggjum mikla áherslu á að bjóða upp á alls kyns afþreyingu af bestu gerð. En ef við eigum að geta aukið framboð okkar á kvikmyndum er nauðsynlegt að vera með í Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum. Við erum því bæði eftirvæntingarfull og stolt yfir að vera orðin aðilar að sjóðnum”.