Talsmenn neytenda á Norðurlöndunum munu funda í Reykjavík á morgun og á föstudag um mögulega lögsókn á hendur iPod framleiðandanum Apple Computer Inc. Einnig verður tekin afstaða til þess hvort lögsækja skuli hvern umboðsaðila Apple fyrir sig eða móðurfyrirtækið í Bandaríkjunum.

Ástæðan er sú að Apple hefur nú náð markaðsráðandi stöðu í sölu á músík og búnaði á MP-3 tónlistarmarkaði. Er Apple með einkaleyfisvarinn staðal fyrir sitt kerfi sem fyrirtækið hefur ekki viljað heimila öðrum afnot af.

Bjarni Ákason forstjóri Öflunar sem á Apple-verslanir á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð og Noregi, segist hvergi banginn. "Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af þessu." Hann segir að Apple sé í fullum rétti að verja sitt einkaleyfi á þessum búnaði þó vissulega sé fyrirtækið orðið markaðsráðandi í þessum geira.

Öflun er nýlega búið að opna nýja Apple verslun í Álaborg í Danmörku og 5. ágúst var opnuð ný verslun í Drammen í Noregi. Þá er verið að opna stórar höfuðstöðvar undir Apple starfsemina á Vesterbrugade í Kaupmannahöfn. Verður fyrirtækið þá komið með 17 Apple-verslanir í rekstur á Norðurlöndum. Bjarni segir að salan í Danmörku hafi gengið vonum framar og nú séu menn farnir að skoða sókn inn í Eystrasaltslöndin.

Neytendasamtökin í Noregi, Danmörku og í Svíþjóð fullyrtu í júní að Apple væri að brjóta samninga um höfundarétt í þessum löndum með því að gera það ómögulegt að spila tónlist sem seld er í gegnum iTunes tónlistarbúðina í öðrum ferðaspilurum en iPod. Apple svaraði því til að fyrirtækið hygðist verja einkaleyfi sitt á þessari tækni og væri ekki tilbúið að breyta sínum viðskiptaháttum með því að hleypa keppinautunum að staðlinum (digital rights management technology).

Ný lög tóku gildi í Frakklandi fyrr í þessum mánuði sem heimila yfirvöldum að þvinga Apple til að gera músík sem seld er í gegnum iTunes aðgengilega fyrir aðra keppinauta. Óvíst er hvaða áhrif þessi lög hafa og hvernig þau samrýmast einkaleyfisvernd á búnaði Apple. Búist er við að reyna muni á þetta fyrir frönskum dómstólum, en talið er eins líklegt að Apple hætti einfaldlega sölu til Frakklands.