Sænska ríkið, eigandi rúmlega þriðjungs í sænska símafyrirtækisins TeliaSonera AB, hefur hafnað 52 milljarða dollara tilboði France Telecom í fyrirtækið sem hefði leitt til myndunar stærsta símafyrirtækis í Evrópu.

Telja sænsk stjórnvöld tilboðið of lágt.

Miðað við tilboðið er markaðsvirði TeliaSonera 26% hærra en það var þegar getgátur um samruna fyrirtækjanna hófust um miðjan apríl.

Tilboðið gerði ráð fyrir að 52% greiðslu fyrir fyrirtækið væri í peningum og afgangurinn í hlutabréfum.Sameinuð myndi fyrirtækið hafa 237 milljónir áskrifenda að þjónustu sinni, samkvæmt Bloomberg-fréttastofunni, þar af 168 milljónir farsímanotenda.

Synjunin glæddi vonir forsvarsmanna norska símafyrirtækisins Telenor um að ganga í eina sæng með Telia, að því er business.dk greinir frá. Telenor hefur áður sýnt áhuga á slíkri sameiningu og litlu munaði árið 1999 að hún yrði að veruleika. Ekki sé hægt að útloka að Norðmenn bjóði á móti Frökkum.

Frakkar rýna í stöðuna

Didier Lombard, forstjóri France Telecom, kveðst ekki telja höfnunina órökrétta og hann hafi ekki orðið fyrir áfalli.

„Ég álít stöðuna ekki vonlausa og við höfum rúman hálfan mánuð til að yfirfara stöðuna,” sagði hann blaðamönnum í dag. TeliaSonera rekur sögu sína til ársins 1853, þegar sænska ríkið setti á stofn konunglega rafsímafyrirtækið, Kongl. Elektriska Telegraf-Verket, í því skyni að starfrækja símskeytakapal á milli Stokkhólms og Uppsala.

Fyrirtækið setti upp fyrstu símalínuna árið 1876, ári eftir að Alexander Graham Bell fékk einkaleyfi á símtæki sínu.