Fyrr á þessu ári samþykktu fjármálaráðherrar Norðurlandanna að setja á fót norrænt "skattahlið" og eins konar norræna sýndarskattstofu til þess að aðstoða þá borgara sem þiggja laun í fleiri en einu Norðurlandanna eða ferðast yfir landamæri til vinnu. Nú ganga menn skrefinu lengra.

Í því skyni að fækka landamærahindrunum á Norðurlöndum vilja
fjármálaráðherrar Norðurlanda að átak verði gert í að fjarlægja hinar ýmsu
hindranir sem fyrirfinnast í skattamálum.

Í vinnu sem unnin hefur verið í því skyni að auðvelda íbúum Norðurlanda að
flytja sig á milla nágrannalanda hefur komið í ljós að skattamál valda oft
fólki sem ferðast til vinnu yfir landamæri vandræðum. Nú er að hefjast vinna
í fjármálaráðuneytum Norðurlandanna með það fyrir augum að auðvelda lausn skattamála hjá þessum einstaklingum. Ráðherrarnir fylgjast vel með þróuninni og munu taka málið upp að nýju á fundi sínum vorið 2005.

Á fundinum var einnig rætt um efnahagsástandið á Norðurlöndunum þar á meðal þau áhrif sem hátt olíuverð hefur haft og hefur á efnahagsástand landanna. Þá var einnig rætt um reynslu af margvíslegum breytingum á skattkerfum landanna.

Fjármálaráðherrarnir ræddu einnig ýmis mál í tengslum við ESB/EES.
Ráðherrarnir ræddu almennar reglur í ríkisfjármálum í ljósi umræðu
Evrópusambandsríkjanna um jafnvægis- og stækkunarsáttmálann. Þeir lögðu áherslu á nauðsyn þess að jafnvægi sé gætt í ríkisfjármálum til lengri tíma litið og bentu á að fjárlagarammi Norðurlandanna er metnaðarfyllri en kröfur jafnvægissáttmálans gera ráð fyrir.

Það er mikilvægt að bæta fjárhaginn þegar efnahagslífið stendur í blóma og
auka áhersluna á að tryggja hagstæða skuldastöðu og jafnvægi í
ríkisfjármálum. Meðalfjárlögin eiga að vera nægilega rúm til þess að
efnahagsaðgerðir geti haft tilætluð áhrif án þess að halli verði á þeim í
efnahagslegum lægðum. Af þessu hafa Norðurlöndin góða reynslu. Norðurlöndin eru einnig sammála um að sterkur fjárhagur er undirstaða vaxtar og góðs atvinnuástands.