Norska álfyrirtækið Norsk Hydro hefur gert bindandi tilboð í 100% eignarhlut Rio Tinto í íslenska álverinu í Straumsvík, ISAL. Tilboðið nær einnig til hluta í verksmiðjum fyrirtækisins í Hollandi og Svíþjóð en það hljóðar upp á 345 milljón Bandaríkjadali, eða sem samsvarar 34,8 milljörðum íslenskra króna.

Áætlað er að kaupin verði kláruð á öðrum ársfjórðungi þessa árs, að því gefnu að samþykki samkeppnisyfirvalda í ESB fáist. Um er að ræða allan hluta Rio Tinto í álverinu hér á landi, 53% eignarhlut í skautverksmiðju í Hollandi og 50% eignarhlutur í álflúorverksmiðju í Svíþjóð.

Með þeirri 210 þúsund mt framleiðslugetu sem er í álveri Rio Tinto í Straumsvík býst Norsk Hydro við að framleiðslugeta fyrirtækisins muni ná 2,4 milljón mt á árinu 2018, þar af 70% sem framleidd eru með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu að það sjái fram á samlegðaráhrif milli rekstursins hér á landi og verksmiðju sinnar í Noregi sem fyrirtækið tilkynnti nýlega enduropnun á. Hægt verði að skiptast á upplýsingum og sameina tæknilega getu verksmiðjanna tveggja, sem eigi að verða fremstar í sinni röð tæknilega.