Norsk Hydro, fjórði stærsti álframleiðandi í heimi, féll um 15% á norska markaðnum í gær í kjölfar tilkynningar til Kauphallarinnar um að miklar kostnaðarhækkanir þurrki burt ávinninginn af hækkandi álverði, að því er fram kemur í frétt Dow Jones fréttaveitunnar.

Þetta er mesta dagslækkun álfyrirtækisins frá árinu 1990, ef marka má frétt Bloomberg.

Álfyrirtækið í íslensku kauphöllinni,Century Aluminium, hækkaði hins vegar um 2,6%, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

„Þetta bendir til að undirliggjandi kostnaður er hærri en greinendur áttu von á,“ segir Oddvar Bjoran, sérfræðingur hjá hinu norska ABG Sundal Collier Holding við Bloomberg.  Honum þótti 15% lækkun of harkaleg viðbrögð miðað við tíðindin.

Eldsneytisverð hefur hækkað mikið á þessu ári, hráolía hefur meðal annars hækkað um 50% og kol hafa tvöfaldast í verði.  „Kostnaður eins og súrál og fragt hefur hækkað,“ segir talsmaður Norsk Hydro við Bloomberg.

Álverð hefur hækkað mikið á árinu, líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum. Þar af um 6% það sem af er þriðja fjórðungs.