Um helgina var aðalfundur Landssambands kúabænda (LK) haldinn á Hótel Sögu. Þar voru fjölmargar ályktanir samþykktar og ein af þeim sneri að innflutningi á holdanautasæði og fósturvísum frá Noregi.

Á fundinum var lýst ánægju með að komin sé niðurstaða Matvælastofnunar um mat á áhættu vegna innflutnings á holda nautasæði og fósturvísum frá Geno Global Ltd. í Noregi.

„Í ljósi niðurstaðna áhættumatsins telur fundurinn að í innflutningi holdanautasæðis felist mikil tækifæri til að efla holdanautabúskap á Íslandi með hóflegri áhættu og hóflegum kostnaði. Því felur fundurinn stjórn LK að vinna ákveðið að því að bændum standi til boða nýtt erfðaefni sem fyrst.“

Sigurður Loftsson, formaður LK, fjallaði um þetta mál í ræðu á fundinum.

„Okkur hefur á undanförnum aðalfundum LK orðið tíðrætt um stöðu nautakjötsframleiðslunnar og þá möguleika sem í henni felast,“ sagði Sigurður.

„Því miður hefur okkur ekki auðnast enn sem komið er að ná nægjanlegri viðspyrnu til að styrkja stöðu þessa hluta nautgriparæktarinnar sem skyldi. Þó kann nú að vera að greina megi nokkrar glæður við sjóndeildarhringinn.“

Sigurður fjallaði um nðurstöðu starfshóps um eflingu nautakjötsframleiðslu sem skipaður var fyrir ári.

„Í greiningu hópsins á mismunandi leiðum við endurnýjun á erfðaefninu kom í ljós að beinn innflutningur á sæði var lang hagkvæmasta aðferðin bæði hvað varðaði kostnað og skilvirkni," sagði Sigurður.

„Landssamband kúabænda hefur lagt á það ríka áherslu að sem fyrst fáist niðurstaða um hvort unnt sé að hraða endurnýjun erfðaefnis holdanautastofnanna með beinum sæðisinnflutningi. Í máli Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á Fagþingi nautgriparæktarinnar nú í gær kom fram að hraðað yrði niðurstöðu þessa máls. Svo sannarlega teystum við því að það verði gert."