Norsk sendinefnd verður send út af örkinni í dag til að kanna efnahagsástandið á Íslandi, að því er fram kemur á norska stjórnarráðsvefnum. Tilgangurinn er að meta þörf Íslendinga fyrir aðstoð.

Í nefndinni verða fulltrúar frá norska fjármálaráðuneytinu, forsætisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og norska seðlabankanum.

Á stjórnarráðsvef Norðmanna kemur einnig fram að fulltrúum frá öðrum Norðurlöndum hafi verið boðið að slást með í för.  Fulltrúi frá sænska fjármálaráðuneytinu hafi þegar þegið boðið.

Nefndin mun meðal annars ræða við íslensk stjórnvöld.

Utanríkisráðherra ræddi við Stoltenberg

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra ræddi, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, ítarlega við Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs og Jonas Gahr Störe utanríkisráðherra Noregs í síma um helgina. Geir H. Haarde forsætisráðherra talaði sömuleiðis við starfsbróður sinn í Noregi.

„Fyrir liggur vilji Norðmanna til að liðsinna Íslandi vegna stöðunnar í efnahagsmálum, en forsenda liðsinnis er samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og á hið sama við um aðrar vinaþjóðir Íslendinga. Jonas Gahr Störe en væntanlegur hingað til lands í opinbera heimsókn í byrjun nóvember,“ segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.