Norska fjármálaráðuneytið hefur samþykkti samruna Glitnis Bank ASA og BNbank. Samruninn sem kallaður hefur verið Albatross verkefnið verður þar af leiðandi á áætlun og mun ljúka í byrjun mars á næsta ári.

Hinum sameinaða banka hefur jafnframt verið heimilað að yfirtaka öll hlutabréf í Glitnir Factoring ASA, Glitnir Securities ASA og 70% hluta í Glitnir Property Holding AS með dótturfyrirtækinu Glitnir Property Group AS, sem á fasteignafélögin Union Eiendomskapital AS og Glitnir Norsk Næringsmegling AS.

Morten Björnsen, framkvæmdastjóri bankastarfsemi Glitnis á Norðurlöndunum hafði þetta að segja um niðurstöðuna í tilkynningu vegna úrskurðarins:  “Ég er ánægður með niðurstöðu ráðuneytisins en hún staðfestir að það hefur verið vandað til alls undirbúnings þessa verkefnis og ég óska öllum sem hafa tekið þátt í því til hamingju.  Þetta þýðir að samrunaáætlunin stenst og formlegum samruna verður lokið þann 1. mars. Öll helstu verkefni eru samkvæmt áætlun og við eigum því öll skilið að komast í gott jólafrí.”