Síðasti mánuður hefur verið góður á norska hlutabréfamarkaðnum. OBX Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 37% hækkun frá áramótum. Flest félög hafa hækkað, þ.m.t. olíutengd félög.  Þrátt fyrir mikla hækkun hafa margir greinendur áhyggjur af útflutningsiðnaði í landinu (horft framhjá olíu) segir í frétt frá IFS Greiningu.

Þar er bent á að verðkennitölur hafa hækkað síðasta mánuðinn samhliða hækkun á hlutabréfaverði en samt sem áður teljast verðkennitölur vera lágar í sögulegu samhengi.

Olían hefur áhrif

Þó hægt hafi á hjólum efnahagslífsins í Noregi líkt og annars staðar þá hefur OBX Úrvalsvísitalan hækkað myndarlega á árinu segir IFS Greining. Þeir benda á að það skýrist að miklu leyti af því að mörg félög í Kauphöllinni í Osló tengjast olíuiðnaði. Frá áramótum hefur olíuverð hækkað úr 40 USD/tonn í 71 USD/tonn. OBX er nú um 273 stig. Þegar olíuverð fór hæst á síðasta ári fór OBX yfir 450 stig.  Laxeldisfélagið Marine Harvest hefur hækkað mest af félögum í OBX frá áramótum, eða um 340%. Norski bankinn DnBNor hefur einnig hækkað mikið, eða um 97%. Stærsta félagið, Statoil, hefur hækkað um 23%.