Gengivísitala krónunnar stendur í rúmum 227 stigum og hefur styrkst lítillega síðan hún náði 229 stigum í síðustu viku. Erlendir gjaldmiðlar hafa á sama tíma sjaldan ef nokkru sinni verið dýrari - ekki einu sinni í gengishruninu sem leiddi til þess að krónan var njörvuð niður með gjaldeyrishöftum.

Krónur
Krónur
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

Þannig kostaði ein norsk króna 22,5 íslenskar krónur um síðustu mánaðamót og hafði hún aldrei verið dýrari. Ein norsk króna kostar 22,4 íslenskar í dag. Þá kostar einn kanadadollar 127 íslenskar krónur. Hann hefur einu sinni áður verið dýrari. Það var í lok apríl í hittifyrra.

Af öðrum einstökum myntum má nefna að einn bandaríkjadalur kostar um þessar mundir 126,3 íslenskar krónur og hefur hann ekki verið dýrari síðarn í júlí árið 2010. Danska krónan kostar 22,4 íslenskar og hefur hún ekki verið dýrari síðan í maí fyrir tveimur árum. Þá kostar evran rétt rúmar 166 krónur. Hún var síðast á svipuðum slóðum um mitt síðasta ár.

Rætt um upptöku kanadadollars

RÚV rifjar upp í dag að talsverð umræða hafi verið um upptöku kanadadollars hér á landi, ekki síst eftir yfirlýsingar sendiherra Kanada fyrir helgi en hann sagði stjórnvöld í heimalandi sínu tilbúin til viðræðna við ríkisstjórnina um upptöku kanadísks dollars. Þá bendir RÚV á að hagfræðingurinn Heiðar Már Guðjónsson hafi verið gestur í Silfri Egils í gær. Hann hefur verið talsmaður einhliða upptöku annars gjaldmiðils og sagði í Silfrinu í gær of tímafrekst og kostnaðarsamt að bíða eftir því að íslenskt hagkerfi uppfylli nauðsynleg skilyrði fyrir upptöku evru.