*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Erlent 19. mars 2020 09:25

Norska krónan sekkur eins og steinn

Norska krónan féll um 14% síðastliðinn sólarhring gagnvart Bandaríkjadal og 30% á síðustu 11 dögum.

Ritstjórn
Erna Solberg forsætisráðherra Noregs.
epa

Norska krónan féll um 14% síðastliðinn sólarhring gagnvart Bandaríkjadal og hefur þá fallið um 30% á síðustu 11 dögum.

Lausafjárskortur og lítil velta á mörkuðum er sögð eiga þátt í fallinu til viðbótar við verðhrun á olíu sem komið hefur illa við norskan efnahag. Verða á fati af Brent stóð í 66 dollurum um áramótin en hafði fallið í 26 dollara í gær og hafði ekki verið lægra í 13 ár. 

Norska krónan er eina mynt nágrannaríkja okkar sem fallið hefur hraðar en íslenska krónan á þessu ári. Norska hefur veikst um 7% í dag gagnvart íslensku krónunni í dag.

Búist er við að norsk stjórnvöld kynni aðgerðarpakka í dag til að mæta efnahagslegum áhrifum af útbreiðslu kórónuveirunnar. Meðal þess sem verið hefur til skoðunar er hvort bjarga eigi flugfélaginu Norwegian sem rambar á barmi gjaldþrots.