Norska skipafélagið Havila ASA, sem nýlega lauk vel heppnuðu 2,3 milljarða króna skuldabréfaútboði á Íslandi í samvinnu við Íslandsbanka, skilaði methagnaði á 3. ársfjórðungi og fyrstu níu mánuðum ársins. Hagnaður fyrir skatta á 3. ársfjórðungi nam 791 milljón króna borið saman við 163 milljónir hagnað á sama tíma í fyrra. EBITDA reyndist 1067 milljónir kr. borið saman við 212 milljónir í fyrra segir í tilkynningu félagsins.

?Þetta er í fyrsta sinn sem við veitum íslenskum markaðsaðilum upplýsingar um afkomu félagsins. Þar sem við eigum í samstarfi við Íslandsbanka og KredittBanken, dótturfélag Íslandsbanka í Álasundi, finnst okkur rétt að greina markaðnum frá methagnaði Havila á 3. ársfjórðungi,? segir Njål Sævik, forstjóri Havila Shipping ASA, í tilkynningufélagsins en félagið valdi nýlega KredittBanken sem annan tveggja viðskiptabanka vegna þjónustustarfsemi sinnar. ?Við trúum því að áhugi íslenskra fjárfesta á Havila muni aukast þegar við greinum frá rekstri og afkomu félagsins í þjónustu við olíuiðnaðinn. Markmið okkar er einnig að ná til íslenskra fjárfesta.?

Fyrstu níu mánuði ársins reyndist hagnaður Havila fyrir skatta 1.239 milljónir kr. borið saman við 310 milljónir í fyrra. Tekjur af reglulegri starfsemi reyndust 3.435 milljónirr samanborið við 1.595 milljónir á 3. ársfjórðungi 2004. EBITDA fyrstu níu mánuði ársins reyndist 1.910 milljónir sem samsvarar 55% sem hlutfall af tekjum. EBITDA 3. ársfjórðungs 2004 reyndist 597 milljónir. Aukinn hagnað má aðallega rekja til hærri leigugjalda og góðs ?spot?-markaðar auk áhrifanna af kaupum á fimm skipum.

Sjóðsstreymi reyndist 993 milljónir á 3. ársfjórðungi. Sjóðsstaða í lok fjórðungsins var 844 milljónir. Veltufjármunir nema 1977 milljónum. Markaðsvirði skipaflota Havila 30. júní var metið á 9.675 milljónir. Öll vaxtaberandi lán félagsins eru í norskum krónum. Havila hefur nýlega lokið við fjármögnun og endurfjármögnun langtímalána sem styrkja fjárhagsstöðu félagsins og tryggja fjármögnun nýrra verkefna. Félagið gaf út skuldabréf sem seld voru íslenskum fagfjárfestum. Með skiptasamningi við Íslandsbanka fékk Havila 2.350 milljónir íslenskra króna (NOK 250 milljónir) til 5 ára. Skuldabréfaflokkurinn er verðtryggður og skráður í Kauphöll Íslands.

Markaður fyrir starfsemi Havila reyndist góður á 3. ársfjórðungi. Ágæt verkefnastaða og góð nýting skipaflotans leiddi til hárra leigugjalda á tímabilinu. Vegna góðrar verkefnastöðu og hagstæðra markaðsaðstæðna er búist við góðri afkomu 2006.

Havila Shipping ASA sérhæfir sig í þjónustu við olíuiðnaðinn og gerir út 18 skip í þeim tilgangi. Félagið var stofnað árið 2003 en Sævik-fjölskyldan, sem á ráðandi eignarhlut í félaginu, hefur rekið fyrirtæki í þjónustu við olíuiðnað síðan árið 1981. Höfuðstöðvar Havila eru í Fosnavåg í Noregi en auk þess er félagið með skrifstofu í Aberdeen í Skotlandi. Heildartekjur félagsins eru áætlaðar 4,35 milljarðar kr. á þessu ári og heildareignir í lok júní voru 16,2 milljarðar. Havila er skráð í Kauphöllinni í Ósló.