Norska tryggingarfélagið Gjensidiege keypti í gær 9,9% hlut í norska fjármálafyrirtækinu Storebrand, en Kaupþing banki jók nýlega hlut sinn í félaginu í 7,82%.

Sérfræðingar búast við að veruleg samkeppni geti myndast um kaup á Storebrand, sem hefur ekki tekið þátt í samþjöppun fjármálafyrirtækja á Norðurlöndum og er því talið ákjósanlegt yfirtökuskotmark.

Finnska fjármálafyrirtækið Sampo tilkynnti í dag um sölu á bankastarfsemi sinni til Danske Bank fyrir 350 milljarða íslenskra króna, en Kaupþing banki hefur verið orðaður við Sampo Bank um nokkurt skeið. Orðrómurinn magnaðist eftir að bankinn ákvað að auka hlutafé um 10%, eða sem nemur um 55 milljörðum króna.

Björn Wahlroos, sem stýrir tryggingastarfsemi Sampo sem ekki verður seld til Danske Bank, sagði á blaðamannafundi í dag að Sampo myndi ekki reyna að kaupa Storebrand, en Wahlroos gerði tilraun til að kaupa Storebrand árið 2001.

Sérfræðingar telja nú að Gjensidiege hafi áhuga á að kaupa Storebrand til að koma í veg fyrir yfirtöku Kaupþings á fyrirtækinu.