Norski olíusjóðurinn hefur tilkynnt að hann ætli sér að taka þátt í hópmálsókn sem er í undirbúningi fyrir þýskum dómstólum gegn þýska bílaframleiðandanum Volkswagen.

Sjóðurinn er fjórði stærsti hluthafi í Volkswagen en sjóðurinn, og aðrir hluthafar, telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna aðgerða fyrirtækisins í tengslum við útblásturs-hneykslið sem komst upp um í september á síðasta ári. Þá komst upp um að díselvélar Volkswagen innihéltu hugbúnað sem gerði þeim kleift að svindla á útblástursprófum. Í kjölfar þess lækkaði markaðsvirði bílaframleiðandans verulega og þurfti Martin Winterkorn forstjóri VW meðal annars að segja af sér. Gert er ráð fyrir því að málsóknin verði lögfest á næstu vikum.

Eignarhlutur sjóðsins í VW nam 1,64% af útgefnu hlutafé í VW og var að verðmæti 750 milljónir Bandaríkjadala. Málsóknin er enn eitt skref í því að sjóðurinn ætli sér að taka virkari þátt í stjórn þeirra fyrirtækja sem hann fjárfestir í, en hingað til hefur hann að mestu verið þögull fjárfestir.

Financial Times greinir frá.