Ríkisstjórn Noregs leggur til að norski olíusjóðurinn beini fjárfestingum sínum í auknum mæli að Bandaríska hlutabréfamarkaðnum, fremur en þeim evrópska. Sjóðurinn býr yfir um 1.000 milljörðum Bandaríkjadala og er því um leið stærsti fjárfestir heims, samkvæmt frétt Financial Times.

Sjóðurinn á að meðaltali um 2,5% af öllum skráðum félögum í Evrópu og um 1,5% af öllum skráðum félögum í heiminum. Ef hugmyndir ríkisstjórnarinnar fara í gegn myndi sjóðurinn minnka hlutabréfastöðu sína í Evrópu úr 33% í 26,5%. Staða sjóðsins í Norður-Ameríku myndi aukast úr 41,6% í 48%.

Sjá einnig: Segir seðlabankastjóra skulda sér bjór

Ef miðað er við markaðsvirði þeirra hlutabréfa sem sjóðurinn átti í lok árs 2019, um 775 milljarðar dollara, yrðu hlutabréf andvirði 50 milljarða dollara seld í Evrópu. Fyrir sambærilega upphæð yrði keypt í Bandaríkjunum.

Jan Tore Sanner, fjármálaráðherra Noregs, hefur sagt að stefnubreytingin sé liður í því að tryggja að fjárfestingar sjóðsins gefi betri mynd um hvar verðmætasköpun á hlutabréfamörkuðum á alþjóðavísi eigi sér stað.

Ef téð breyting fer í gegn væri það í annað sinn sem sjóðurinn minnkar hlutdeild sína á evrópskum hlutabréfum á síðustu árum.