Norski olíusjóðurinn tilkynnti síðastliðinn sunnudag að hann hyggst kjósa gegn launastefnu Apple á hluthafafundi þann 4. mars. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times . Sjóðurinn, sem er 1,3 billjón dala virði ($1.3tn), jafnvirði 164 þúsund milljarða króna, á 1,03% hlut í Apple og er áttundi stærsti hluthafi tæknirisans, samkvæmt gögnum Refinitiv.

Sjá einnig: Umdeildar launagreiðslur Cook

Það sem vekur mesta athygli við launastefnu Apple er tæplega 100 milljóna dala launagreiðslur til Tim Cook, forstjóra félagsins, á síðasta ári. Cook, sem hefur gegnt starfi forstjóra Apple í rúman áratug og starfað fyrir félagið í meira en tvo áratugi, fékk 98,7 milljónir Bandaríkjadala í launagreiðslur árið 2021. Grunnlaunin námu 3 milljónum dala en hann fékk að auki 12 milljónir í hvatagreiðslur. Auk þess fékk hann 82 milljarða dala í formi hlutabréfa í félaginu og naut ýmissa fríðinda, þar á meðal ferða með einkaþotum félagsins.

Vaxandi óánægja hefur verið meðal hluthafa Apple varðandi umfang launagreiðslna til Cook. Í bréfi sem ráðgjafafélagið Institutional Shareholder Services (ISS) sendi til hluthafa félagsins var áhyggjum lýst yfir umfangi greiðslnanna. Jafnframt sagði í bréfi ISS að launagreiðslur Cook hafi verið um 1.447 sinnum hærri en laun hjá meðalstarfsmanni Apple og að meirihluti greiðslnanna hafi verið ótengdar frammistöðu í starfi.

Olíusjóðurinn sagði í tilkynningu að það væri heppilegast ef stór hluti af árslaunum væri bundinn í hlutabréfum sem eru innleysanleg eftir fimm til tíu ár. „Stjórn Apple á að birta heildarlaunagreiðslur til stjórnenda með gagnsæjum hætti,“ sagði jafnframt í tilkynningunni.

Samfélagslega ábyrgur olíusjóður

Norski olíusjóðurinn stefnir á að verða meira virkur í umhverfismálum og félagslegum málum. Sjóðurinn hefur nýlega gefið út að hann ætli ekki að fjárfesta frekar í Rússlandi í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá. Sjóðurinn ætlar auk þess að vinda ofan af 3,1 milljarða dala eignum í landinu, í kjölfar fyrirskipunar frá norska ríkinu.