Norska ríkisstjórnin hefur fyrirskipað norska olíusjóðnum að stöðva allar fjárfestingar í Rússlandi. Fyrirskipunin er ein af nokkrum viðskiptaþvingunum sem Noregur hefur lagt á hendur Rússlands, en þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Olíusjóðurinn, sem er 1,3 billjón dala virði ($1.3tn), jafnvirði 164 þúsund milljarða króna, er til húsa í Seðlabanka Noregs. Sjóðurinn mun ekki fjárfesta frekar í Rússlandi. Enn fremur mun sjóðurinn vinda ofan af 3,1 milljarða dala eignum í landinu. Umræddar eignir nema 0,2% af heildareignum sjóðsins.

Nicolai Tangen, forstjóri olíusjóðsins, hefur lýst yfir efasemdum um að útiloka fjárfestingar í Rússlandi. Hann benti á, í síðustu viku, að ef sjóðurinn seldi eignir sínar í landinu myndu rússneskir olígarkar hreppa eignirnar á afslætti. Trygve Slagsvold Vedum, fjármálaráðherra Noregs, lýsti því hins vegar yfir að hann taldi aðgerðina nauðsynlega í ljósi aðstæðna.

Norska ríkið ætlar einnig að úthluta tveimur milljörðum norskra króna, eða um 30 milljörðum króna, í mannúðaraðstoð til Úkraínu, auk þess að úthluta ýmsum hergögnum. Noregur hefur nú þegar úthlutað 250 milljónum norskrra króna í kjölfar innrásarinnar.

Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu hafa fjöldi viðskiptaþvingana verið lagðar á, á hendur Rússum. Meðal þeirra er að útiloka rússneska banka úr SWIFT greiðslukerfinu. Sú aðgerð gerir útflutningsaðilum í Rússlandi mjög erfitt fyrir að fá greitt fyrir útflutningsvörur á borð við olíu, gas og hveiti. Norska ríkið hefur einnig útilokað rússneskar flugvélar í norskri lofthelgi.