Stærsti ríkissjóður heims, hinn svokallaði olíusjóður Noregs, hefur tapað þúsundum milljarða í íslenskum krónum talið á hlutabréfum í Kína og á hlutabréfum í Volkswagen.

Sjóðurinn, sem hljóðar upp á einhverja 110 þúsund milljarða íslenskra króna, skrapp saman um rúm 5% á fjórðungnum. Hlutafjáreignir sjóðsins lækkuðu um 8.6%. Skuldabréf og fasteignir hækkuðu þó um eina prósentu og þrjár, í sömu röð. Þetta er í fyrsta sinn sem sjóðurinn birtir tap tvo ársfjórðunga í röð í heil sex ár.

Yngve Slyngstad, framkvæmdastjóri sjóðsins, segir þessa lækkun ekki vera áhyggjuefni til langs tíma. „Við verðum að geta búist við flökti á markaðnum,“ sagði Yngve.

„Þegar sjóðurinn er jafn gríðarstór og hann er í dag geta lækkanir og hækkanir á stuttum tímabilum haft mikil áhrif á styttri tíma litið. Sjóðurinn er þó hugsaður til langtímafjárfestinga, og fer létt með að sigla dálítinn skammtímabrotsjó.“